Spákonuhof: Menningararfur Skagstrendinga lifnar við

Þórdís spákona

Út hefur komið stutt bók um sögu Þórdísar spákonu. Bókina skrifuðu Dagný María Sigmarsdóttir, Sigrún Lárusdóttir og Svava G. Sigurðardóttir

Sumarið 2011 var Spákonuhof opnað á Skagaströnd. Tilgangur hofsins er að endurvekja minningu Þórdísar Spákonu, en hún er sögufræg persóna á staðnum. Hún er talin vera fyrsti íbúi Skagastrandar.[1] Hofið er bæði sögusafn og spákonusetur í senn.

Um Spákonuhof

Leiðsögn er í boði fyrir gesti þar sem ævisaga Þórdísar er reifuð með hjálp fallega myndskreyttum refli.[2]  Einnig er boðið upp á spádóm ef gestir hafa áhuga á slíku gegn vægu gjaldi. Hægt er að láta spá fyrir sér með lófalestri, rúnum eða í bolla.[3] Ef farið er eilítið í sögu Þórdísar spákonu, þá er ekki ýkja mikið til af heimildum um hana.

Hennar er getið í nokkrum Íslendingasögum; Vatnsdælasögu, Kormákssögu og Heiðvígarsögu. Einnig er hennar getið í Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum eftir Jón Árnason.[4] Hún átti að hafa verið uppi á 10. öld og hafa verið allfjölkunnug. Kemur það til dæmis fram í Vatnsdælasögu, en þar notar hún galdra til að fá Guðmund ríka til að þiggja bætur eftir að ættmenni hans var vegið.[5]

Þórdís er þorpsbúum vel kunn og lifir í landslaginu umhverfis byggðina. Höfðinn yfir þorpinu heitir Spákonuhöfði og fjallið sem gnæfir yfir þorpinu heitir Spákonufellsborg (eða Spákonufell). Sagan segir að hún hafi setið löngum stundum í hlíðum fjallsins og kembt á sér hárið með gullkambi.[6] Minning hennar er því bókstaflega greipt í landslagið. [7]

Gestir taka þátt í endursköpun Þórdísar

Hér er því ekki eingöngu um safn að ræða, heldur lifandi starfsemi þar sem gestir og gangandi taka þátt í endursköpun Þórdísar. Safnið endurvekur minninguna um þessa sögufrægu persónu og fær samfélagið með sér í athöfnina. Ekki er eingöngu um dauða safngripi að ræða, endurgerðir í þeirri mynd sem þeir mögulega hafa verið í, heldur geta gestir upplifað heim Þórdísar að einhverju leyti með því að láta til dæmis spá fyrir sér. Gestinum líður örlítið eins og hann sé í heimsókn hjá Þórdísi sjálfri. Til þess að skapa slíkt andrúmsloft hefur safnið tekið sér nokkurt skáldleyfi og jafnvel fyllt í sögulegar eyður eftir þörfum.

Meðlimir samfélags hafa ávallt þörf á því að muna sögu sína. Með Spákonuhofi eru Skagstrendingar að endurbyggja fortíð sína. Það er gert með nútímatækni og nútíma markaðssetningu. Gesturinn þarf áreiti, vill láta skemmta sér og sjá eitthvað nýtt og spennandi. Hann sækist eftir minningu til að taka með sér heim.

Andreas Huyssen segir að sameiginlegt minni geti verið alveg jafn breytilegt og hjá einstaklingnum, að það sé jafnframt upplifað í samræmi við samtímann. [8]

Þórdís spákona 1

Þórdís á sér fastan sess í sögu Skagastrandar

Hér er því ekki beinlínis leitast við að segja sögu Þórdísar eins nákvæmlega og mögulegt er, enda frekar erfitt þar sem ekki eru til mjög margar heimildir um hana. Engu að síður á hún sér fastan sess í sögu þorpsins og bókin Byggðin undir Borginni hefst einmitt á sögu Þórdísar (bls. 20-26). Munnmælasögur um Þórdísi hafa lifað með byggðinni í margar aldir. Samfélagið kallar þar með af vissu leyti eftir hofinu. En samfélagið byggir ekki eingöngu áþreifanlegt og lifandi minnismerki (safn í þessu tilfelli) fyrir sjálft sig og söguarf sinn, heldur ekki síður sem markaðsvöru fyrir gesti sem heimsækja byggðina.

Markmiðið með hofinu er því að halda minningunni lifandi og sporna við því að Þórdís falli í gleymsku. Andreas Huyssen ræðir það einmitt hversu fljótt minnismerki gleymast og að ekkert sé eins ósýnilegt og minnismerki (A.H. bls. 250). Anne Whitehead ræðir einnig menningarminni samfélags sem á sér sterkar og djúpar rætur í sögu samfélagsins og bendir jafnframt á þögnina í kenningu Halbwachs um að sameiginlegt minni nái ekki lengra aftur en um það bil eina mannsævi. [9] Í tilfelli Spákonuhofsins varðveitist menningarminnið um Þórdísi í  munnmælasögum, bókmenntatextum og örnefnum náttúrunnar.

Er sagan að víkja fyrir skemmtanagildinu?

Ekki eru þó allir á eitt sáttir um að menningarsetur líkt og Spákonuhof gætu verið minningu Þórdísar til framdráttar. Andreas Huyssen bendir í því samhengi á að ýmsir gagnrýnendur mótmæla þróun safnamenningar í dag. Að söfn og minnismerki gangi meira út á skemmtanagildið og útlitið heldur en söguna sjálfa:

Gagnrýnendur sem einblína eingöngu á söguna myndu segja að nýju söfnin og sú menning sem skapast hefur í kringum þau séu að einhverju leiti að svíkja alla raunverulega sýn á söguna. Nú gildir einu að setja upp sýningu og skemmta fólki. Gagnrýnendur vilja meina að slík þróun gefur til kynna póstmódernískt viðhorf og eyðileggur frekar tilfinninguna fyrir sögunni heldur en að viðhalda henni, hvort sem um ræðir fortíðina, nútíðina eða framtíðina (A.H. bls. 254. Þýðing greinarhöfundar)

Andreas Huyssen bendir einnig á í þessu samhengi að þrátt fyrir minnisleysi samtímans, þá er nútímamaðurinn afar heillaður af fortíðinni (A.H. bls. 250). Hvernig hún er síðan borin fram fyrir viðtakendurna er efni í endalausar rökræður og rannsóknir. Er þá gengið of langt í því að endurskapa fortíð á tilgátum einum saman, auk þess sem skemmtanagildið hefur töluvert vægi?

Þórdís Spákona vatndælasaga

Þórdísar er meðal annars getið í Vatnsdælasögu en hún er talin hafa verið uppi á 10 öld

Er Spákonuhof á Skagaströnd eitt dæmi þess? En töluvert er fyllt upp í eyðurnar í sögu Þórdísar eins og fram hefur komið. Einnig má benda á vaxbrúðuna af Þórdísi sem stendur í anddyri hofsins, en hún er afsteypa eftir lifandi konu í bænum. [10] Hver og einn þarf væntanlega að svara þessum spurningum fyrir sjálfan sig. En hofið vekur tvímælalaust athygli og áhuga gestsins. Mikilvægt er einnig að viðhalda minningu Þórdísar þar sem hún er viðamikill þáttur í sögu bæjarins.

Einnig má spyrja sig, við hvað á að miða þegar söfn, eins og Spákonuhof, eru opnuð? Verður skemmtanagildið undantekningarlaust að víkja fyrir sögunni? Getur annað ekki verið til án hins? Aðalatriðið er að fá gestinn til að læra eitthvað nýtt og spennandi um það sem sýnt er, vekja áhuga á samfélaginu og umhverfinu. Meginmarkmiðið hlýtur ávallt að vera útbreiðsla menningarinnar að einhverju leyti, kynning á samfélaginu og þeim ríka arfi sem það hefur að geyma.

Safnið sem slíkt er ekki lengur ætlað útvöldum „menningarvitum“

Andreas Huyssen telur að meiri – og aðrar – kröfur séu gerðar til safnsins í dag en áður var gert. Einnig bendir hann réttilega á að ,safnið sem slíkt, er ekki lengur einungis ætlað útvöldum „menningarvitum“ og þeim sem eru hærra settir í þjóðfélagsstiganum. (A.H. bls. 254).

Í dag miða söfn og minnismerki meira að því að tala til hins almenna samfélagsþegns. Hann/hún kemur til að sjá eitthvað nýtt, láta skemmta sér og hafa gaman af.  Spákonuhof uppfyllir einmitt þessar kröfur. Gesturinn fer þaðan með miklu meiri þekkingu á samfélaginu og sögu þess. Hann fer ekki bara með minningu um Þórdísi heim í farteskinu, hann fer einnig með minninguna um velheppnaða heimsókn í Spákonuhofið.

Spákonuhofið er opið á sumrin og fer hver að vera síðastur að kíkja á þetta einstaka safn/setur. Allar nánari upplýsingar má finna á Facebook síðunni þeirra.

Greinin er verkefni sem greinarhöfundur vann í M.A. námi sínu í bókmenntafræði við HÍ haustið 2011


[1] ,Sjá umfjöllun sem birtist á vefsíðunni Feykir.is þ. 4. júlí 2011,

[2] Sama

[3] Sama

[4] Í annarri bók Jóns Árnasonar er að finna lítinn kafla um Þórdísi Spákonu og rimmu hennar við Eirík prest á Hofi, en sú viðskipti urðu henni að aldurtila. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri II, bls. 93-95.

[5] Íslendingasögur VII, ,,Vatndælasaga“, bls. 116-118.

[6] Frá þessu segir bæði í Íslenskum þjóðsögum Jóns Árnasonar og í bók um Skagaströnd; Byggðin undir borginni rituð af Bjarna Guðmarssyni, bls. 26.

[7] Bjarni Guðmarsson ræðir einnig örnefnið ,,Spákonufell“og segir mögulegt að það sé ekki endilega sprottið af sögunni um Þórdísi. Mögulegt er að það hafi fengið nafnið vegna góðs útsýnis. Byggðin undir Borginni, Sjá bls. 26.

[8] Andreas Huyssen, Twilight memories, bls. 249-250. Hér eftir verður vísað í þessa útgáfu með upphafstöfum höfundar og blaðsíðutali innan sviga: In the wake of Freud and Nietzsche, however, we konw how slippery and unreliable personal memory can be; always affected by forgetting and denial, repression and trauma, it, more often than not, serves a need to rationalize and maintain power. But a society´s collective memory is no less contingent, no less unstable, its shape by no means permanent. It is always subject to subtle reconstruction. A society´s memory is negotiated in the social body´s beliefs and values, rituals and institutions. In the case of modern societies in particular, it is shaped by such public sites of memory as the museum, the memorial and the monument.  

[9] Anne Whitehead, Memory, bls. 132. Hér eftir verður vísað í þessa útgáfu með upphafstöfum höfundar og blaðsíðutali innan sviga: Cultural memory in contrast, is primarily concerned with events from a more distant past, beoynd living memory. The memory of events is retained either through cultural formation (texts, rites, or monuments) or through insitutional commemoration (recitation, practice, observance).

[10] Sjá frétt á vefmiðli Feykis

Efnisorð:, ,

Flokkar: Listir, Menning

Höfundur:Menningarvitinn.is

Vefsíða um bókmenntir, listir og menningu