Bestu bækur sem ég hef lesið

Nú er Menningarvitinn að fara af stað með nýja flokk sem heitir Bókaormurinn, en hann gengur út á það að finna einn góðan bókaorm sem segir frá 5-10 bestu bókum sem hann/hún hefur lesið.

Ég, Ruth Ásdísardóttir, sem ritstýran ákvað því að hefja þetta skemmtilega framtak og nefna nokkrar af bestu bókum sem ég hef lesið. Ég tek það samt fram að hér mun ég bara velja nokkrar af þeim bestu þar sem hreinn ógerningur væri að fara að telja upp allar þær bækur sem mér finnst stórkostlegar … en þær eru að sjálfsögðu alltof margar til að telja upp hér.

 

Bókaormur ruth 1

Norwegian Wood – Haruki Murakami

Þessa bók keypti ég í San Francisco fyrir mörgum árum. Ég heimsótti þekkta bókabúð í borginni sem heitir City Books. Það var eitthvað alveg sértstakt við andrúmsloftið í þessari verslun sem ég gleymi aldrei. Mér fannst líka eitthvað svo viðeigandi að kaupa þessa bók þarna. Ég veit ekki af hverju, en af einhverjum ástæðum þá hugsa ég alltaf til San Francisco þegar ég hugsa til bókarinnar. Bókin er kannski svolítið eins og borgin, ljóðræn, full af hæðum og lægðum, björt en samt svo angurvær og full af ljúfsárum minningum. Þetta er allavega ein besta bók sem ég hef lesið og ef þú vilt lesa eitthvað eftir Murakami, þá myndi ég mæla með þessari.

 

Bókaormur ruth 8

Teikning eftir Gunnar Gunnarsson yngri

Aðventan eftir Gunnar Gunnarsson

Þetta var bók mánaðarins í leshópnum sem ég var í fyrir nokkrum árum. Íslenski bókmenntageirinn er að öllu jöfnu mjög neikvæður út í rithöfundinn og enn eimir eftir af fjandskap út í Gunnar fyrir að hafa verið sakaður um nasisma og landráð fyrir að skrifa á dönsku. Ég var þess vegna allt að því feimin við að taka upp bókina og lesa. En þvílíkt ferðalag sem textinn fór með mig í á þessum fáu blaðsíðum. Ég sá fyrir mér ægifagurt íslenskt landslag, ég sá líka nálægðina við minn æðri mátt í textanum. Ég hef oft verið úti í íslenskri náttúru og upplifað magnaðar tilfinngar sem ég hef ekki komið í orð. Aðventan komst ansi nálægt því. Bókin er algjört meistarverk enda Gunnar, fyrir mitt leyti, einn af allra bestu höfundum sem ég veit um.

 

Bókaormur ruth 4

Mynd/Amazon.com

Wuthering Heights – Emily Brontë

Þessi verður bara að vera með, svo einfalt er það. Þetta meistaraverk las ég þegar ég var rétt rúmlega tvítug og gjörsamlega niðursokkin í klassískar bókmenntir. Það hafa fáar bækur fengið mig til þess að upplifa eins sterkar og stórar tilfinningar gagnvart skáldaðri bókmenntapersónu eins og þessi gerði. Svona eftir á að hyggja þá leið mér svolítið eins og ég hefði verið í stuttu en ofsalega stormasömu og ástríðufullu ástarsambandi. Þetta er líka ein af fáum bókum sem ég hef vitnað í á ástarfundi.

 

 Bókaormur ruth 5

Sakleysingjarnir – Ólafur Jóhann Ólafsson

Það kemur kannski einhverjum á óvart að ég skyldi nefna þessa. En af öllum hans bókum – sem eru flest hrein meistaraverk að mínu mati – þá finnst mér þessi eiginlega vera best. Það er eitthvað við söguna sem greip mig heljartökum. Það er angurværð í henni sem mér finnst algjörlega einstök og erfitt að setja í orð. Textinn fór með mig í ótrúlegt ferðalag sem var bæði ævintýralegt en erfitt og ljúfsárt.

 

Bókaormur ruth 6

Mörg eru ljónsins eyru – Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir

Þessi bók, ásamt annarri bók eftir hana Kalt er annars blóð, fara klárlega á þennan lista. Mörg eru ljónsins eyru er í rauninni Laxdæla færð til nútímans, þar sem söguhetjurnar birtast reglulega á síðum slúðurblaðanna og glíma við nútímaleg og hversdagsleg vandamál eins og við hin. Bókin Kalt er annars blóð er síðan Njála færð inn í nútímann. Hugmyndin er ekki bara frábærlega útfærð, heldur er Þórunn algjör meistari í íslenskri tungu og hef ég sjaldan lesið texta sem er eins snilldarlega vel settur saman. Þórunn er tvímælalaust ein af mínum uppáhalds íslensku rithöfundum. Ég mæli eindregið með báðum bókunum, en það er kannski skemmtilegra að vera búin/n að lesa eldri útgáfuna af sögunum fyrst.

 

Bókaormur ruth 7

Betty – Arnaldur Indriðason

Ég set þessa hér, ekki vegna þess að hún er svo snilldar vel skrifuð (ekki að það sé neitt að textanum svosem) heldur vegna þess hversu frábærlega sagan er byggð upp. Allir sem ég tala við, og hafa lesið bókina, segja að hún hafi komið þeim ansi mikið á óvart. Ég segi eiginlega ekki meira því það eyðileggur alla skemmtunina. Lestu bara bókina ef þú ert ekki nú þegar búin/n að því.

 

Bókaormur 3

The French Revolution – Christopher Hibbert

Ég man að ég las þessa bók alltaf á leiðinni í vinnuna fyrir löngu síðan. Þá þurfti ég að ferðast nokkuð langa vegalengd með strætó til þess að komast í vinnuna og fannst frábært að nýta tímann í að fræðast um ýmislegt. Eitt það merkilegasta sem ég lærði í rauninni á því að lesa um hina frægu frönsku byltingu var að sagan endurtekur sig í eiginlega alltaf. Ég áttaði mig einnig á því að þegar harðstjóranum hefur verið steypt af stóli, þá er sá sem tekur við stjórninni ekkert endilega eitthvað betri. Ég lærði heilmikið af þessari bók og fannst aðgengileg og vel skrifuð.

 

Bókaormur ruth 2

Mynd/Amazon.com

London – Edward Rutherford

Þessa bók las ég fyrir löngu síðan en ég gjörsamlega gleymdi mér í sögunni. Ég man að hún var hnausþykk og mér var oft strítt fyrir nördaskap þegar ég sat með hana í kjöltunni, algjörlega niðursokkin. Sagan er ekki bara virkilega áhugaverð og fræðandi heldur er hún líka falleg og eiginlega svolítið stórkostleg. Ef þú hefur áhuga á sögu London (og Englands) þá mæli ég eindregið með þessari.

 

Bókaormur ruth 9

Jerusalems Natt – Sven Delblanc

Ég nefni hér Jerusalems Natt á undan hinni vegna þess að mér fannst hún hreinlega aðeins betri. Hún er virkilega fallega skrifuð og fær mig enn til að hugsa tíu árum síðar. Hún veltir upp gríðarlega mikilvægum spurningum varðandi sýn okkar á Jesú og trúnna yfirhöfuð. Það er margt þarna sem fékk mig til að líta söguna af Jesú allt öðrum augum. Bókin hefur í rauninni ekkert með trú að gera heldur miklu meira með heimspeki. Ég upplifið hana allavega þannig og lít enn svo á. Hin bókin, sem heitir Speranza, var í rauninni ekki síðri nema hún er töluvert grimmari. Hún sýndi mér á miskunnarlausan hátt hvernig umhverfið mótar okkur, og oft hreinlega gegn vilja okkar. Tvær bækur sem ég tel vera hreint meistaraverk. Ekki spillir svo fyrir að  þessi stórmerkilegi rithöfundur var nágranni minn í Uppsala á tímabili þegar ég bjó þar.

Efnisorð:, ,

Flokkar: Bókaormurinn, Bókmenntir

Höfundur:Menningarvitinn.is

Vefsíða um bókmenntir, listir og menningu
%d bloggurum líkar þetta: