Um vefinn

Menningarvitinn

Ruth ritstýra

Ruth Ásdísardóttir, ritstýra Menningarvitans.

Menningarvitinn er vefsíða þar sem menningarmálum af ýmsu tagi er miðlað á aðgengilegan og ánægjulegan hátt. Markmiðið með Menningarvitanum er að skapa skemmtilegan vef sem höfðar til sem flestra á aldrinum 20 +. Mig langaði að miðla menningu á aðeins léttari máta, en oft er menning talin mjög alvarleg og jafnvel hálf leiðinleg. Sumum finnst ef til vill menning vera eitthvað sem aðeins fáir útvaldir hafa aðgang að. Ég ákvað þess vegna að nota snið afþreyingarmiðlanna til þess að ná til sem flestra.

Markmiðið með vefsíðunni er að vekja almenning svolítið til umhugsunar um hvað menning eiginlega er. Ég tel nefnilega menningu vera svo miklu miklu meira en bara listasöfn, sinfóníutónleikar og eitthvað sem sumir vilja kalla Hámenningu. 

 

Sagan á bak við Menningarvitann

Hugmyndin að Menningarvitanum fæddist á kaffistofunni í Þjóðarbókhlöðunni haustið 2011. Ég stundaði þá meistaranám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Ég viðurkenni að mér leiddist svolítið námið. Mér fannst það frekar þurrt og fannst ofuráhersla lögð á fræðilega nálgun og það virtist sem allir tækju sig svo ofur alvarlega.

Ég hafði tekið menningarfræði sem aukagrein í B.A. náminu mínu (þegar það var í boði) og heillaðist gjörsamlega af faginu. Ég ákvað því að taka nokkra kúrsa í menningarfræði með M.A. náminu og upplifði ég þar virkilega skemmtilega nálgun á menningu og menningarfræði.

Kennari minn, Benedikt Hjartarson, sem ég met afskaplega mikils, hjálpaði mér að komast að þeirri niðurstöðu, að menning er svo miklu dýpra hugtak heldur en það sem ég áður hélt. Hver getur svosem svarað þeirri spurningu hvað menning er? Hver ákvað að hugtakið skuli einungis vera skilgreint á mjög svo þröngan hátt? Var það kannski Sigurður Norðdal? Eða Jónas frá Hriflu? Eða einhver allt annar?

 

Um vefinn Obama selfie

 

Upplifun mín, á því hvað fólk almennt heldur að menning þýði, er þessi sem ég nefni hér að ofan. Það var ein stærsta ástæðan fyrir því að ég ákvað að tjá mína skilgreiningu á menningu í gegnum vefsíðuna. En, hún er í aðal atriðum sú að það getur í rauninni engin náð algjörlega utan um hugtakið. Samræðan heldur áfram svo lengi sem menning verður til og er ósk mín sú að Menningarvitinn taki þátt í þeirri samræðu.

Það sem mér fannst líka vanta var að létta umræðuna aðeins um til dæmis bókmenntir og listir. Þetta er að breytast hægt og rólega og langaði mig að skapa vettvang þar sem fólk getur notið menningar á aðeins léttari nótum.

 

Bókafíkill 1

 

Fyrir hverja?

Af hverju til dæmis ekki að segja skemmtilegar sögur af heimsfrægum rithöfundum? Af hverju ekki að birta lista yfir vinsælustu rithöfunda samtímans?  Vefurinn er heldur ekki þannig að hann ýti undir stereótýpur kvenna og karla heldur er vefurinn algjörlega kynlaus. Hann er fyrir bæði karla og konur á nánast öllum aldri og er Ósk mín sú að Menningarvitinn verði afþreyingarvefur þar sem allir geta lært eitthvað nýtt og spennandi.

 

cropped-wp_000678.jpgVefurinn er til dæmis hugsaður sem afþreying fyrir háskólanema þegar þeir vilja aðeins hvíla sig á náminu og fara einn nethring, eða fyrir þann sem er að vinna í menningarmálum, í bókasafninu, á listasafninu, í bankanum, eða bara hvar sem er. Vefurinn á semsagt að vera fyrir konur og karla á aldrinum frá 20 +

Menningarvitinn er hluti af námi mínu í hagnýtri menningarmiðlun og þróaðist hann áfram í síðuna eins og hún er í dag.

 

 

Taktu þátt og hafðu samband

Ég hvet að sjálfsögðu alla til að hafa samband og senda inn skemmtilegt og áhugavert efni á menningarvitinn@gmail.is

Einnig hvet ég alla til að senda inn ábendingar en þær eru að sjálfsögðu vel þegnar. 

Með von um að þú njótir Menningarvitans vel og lengi!

Ruth Ásdísardóttir, ritstýra.

%d bloggurum líkar þetta: