Katrín Sylvía í Kasy: „Það var bara að stökkva út í djúpu laugina“

Eitt af því sem margar konur hafa eflaust lent í vandræðum með er að finna sér hentug sundföt. Því miður er oft eins og sundföt séu einungis hönnuð fyrir ákveðna stærð af konum. Það virðist einhvern veginn aldrei vera reiknað með að konur með nokkur aukakíló vilji líka líta vel út í baðfötum og njóta þess að upplifa sig kynþokkafulla og flotta.

Katrín Sylvía Símonardóttir frumkvöðull. Mynd/úr einkasafni

Katrín Sylvía Símonardóttir frumkvöðull. Mynd/úr einkasafni

Ég var einmitt sjálf búin að vera að íhuga hvert ég ætti að fara til að kaupa mér þægileg og flott sundföt þegar ég rakst á Facebook síðu Kasy og sá að stofnandinn og hönnuðurinn, Katrín Sylvía Símonardóttir, stæði fyrir herferð á vefsíðunni Indiegogo en hún er til þess að fjármagna áframhaldandi framleiðslu og hönnun á sundfatalínunni Kasy. Línan er einmitt hugsuð fyrir konur í öllum stærðum og gerðum. Ég stóðst hreinlega ekki mátið og hafði samband við Katrínu og spurði hana aðeins út í þessa frábæru hönnun.

Menntuð í snyrtifræði og fiskifræði

Á vefsíðunni Indiegogo er aðeins farið í sögu Katrínar og hvernig hún fékk fyrst hugmyndina, en hún varð í rauninni til í fríi á Spáni þar sem Katrín var stödd með syni sínum.

Ég byrja á að forvitnast aðeins um bakgrunn Katrínar.

„Það er eiginlega svolítið skemmtilegt að þú viljir forvitnast um bakgrunn minn en þegar ég segi frá honum finnst mörgum skrýtið – þó aðallega ókunnugum – að ég sé menntaður snyrtifræðingur og fiskifræðingur og að ég sé að fást við þetta í dag. Ég fór að vísu í frumkvöðlafræði þegar ég fékk þá flugu í hausinn að fara með hugmyndina lengra.“ Katrín bætir við að það felist reyndar viss hönnun og list í snyrtifræðinni og að hún hafi alltaf verið mjög skapandi, alveg frá því að hún var lítil stelpa. „Draumurinn minn hefur samt alltaf verið að læra innanhúshönnun og ljósmyndun, hver veit nema ég láti þá drauma rætast einn daginn, maður er aldrei of gamall til að læra nýja hluti.“

 

Vantaði hreinlega fallegan sundfatnað á markaðinn fyrir konur í stærri stærðum

Aðspurð hver hefði verið aðal ástæðan fyrir því að hún hafi farið út í hönnunina á Kasy, þá segir Katrín að hana hafi hreinlega vantað fallegan og kynþokkafullan sundfatnað. „Mig vantaði í rauninni sundfatnað sem gerði eitthvað fyrir mig, eitthvað sem mér liði vel í, yki sjálfstraust mitt og að ég myndi upplifa mig kynþokkafulla á sama tíma,“ segir Katrín. „Ég er þessi týpíska jójó týpa sem rokkar upp og niður í kílóum og það hefur alltaf reynst mér erfitt að finna sundfatnað sem er elegant og fallegur, sama í hvaða stærð ég hef verið. Flest allt sem er í boði hefur mér fundist of skrautlegt eða með ljótu blómamynstri. Mér finnst að konur með aukakíló megi líka vera í sætum sundfatnaði.“

 

Kasy forsíða

Mynd/Eydís Björk Guðmundsdóttir

 

Katrín bætir við að hugmyndin sé einmitt hugsuð þannig að konum geti liðið vel í leik með börnum sínum í sundi. „Til dæmis gætu þær verið í sundkjólnum í leik og þegar þær svo fá tíma til að slaka á og vilja fara í sólbað, geti þær smellt af sér aukastykkinu og verið komnar í bikiní á einu augabragði. Þetta sparar mikinn tíma og það þarf ekki að hlaupa upp á hótelherbergi til þess að fara úr sundbolnum og yfir í bikiníið.“

„Stökk út í djúpu laugina og tók áhættuna“

Katrín segir að hún hafi leitað mjög lengi að sundfatnaði með þessum eiginleika, sem Kasy hefur, en hafi hvergi fundið hann. „Það var sama hversu mikið ég leitaði og spurðist fyrir, það var ekkert til sem ég var að leita að. Þannig að þegar ég áttaði mig á því að kannski væri engin að bjóða sundfatnað með þennan eiginleika, þá lagðist ég í rannsóknarvinnu og komst að því að sú var einmitt raunin. Þá hugsaði ég með mér af hverju á ég ekki bara að gera þetta sjálf, ég hlýt að geta gert þetta eins og aðrir. Út frá því stökk ég í djúpu laugina og tók áhættuna.“

 

Kasy 1

Eins og sést á þessum myndum þá er Kasy sundfatalínan gríðarlega fjölhæf og sérhönnuð til þess að henta sem flestum konum. Myndir/Kasy

 

Kasy 2

Hér er til dæmis hægt að sjá mismunandi samsetningar.

 

Kasy 12

Böndin á bikiní brjóstarhaldaranum eru hönnuð þannig að hægt er að breyta þeim á þrjá vegu.

 

Í dag er Kasy að bjóða hágæða sundfatnað fyrir konur með mjúkar línur. Hægt er að breyta sundfatnaðinum eftir því sem hentar hverju sinni. Grunnurinn er bikiní brjóstahaldari og sundbuxur, svo eru einnig til tvær auka flíkur þannig að hægt er að breyta bikiní brjóstarhaldaranum í sundkjól eða í tankini útlit. Á flíkunum eru fallegar segulsmellur sem poppa upp sundfatnaðinn og gera hann pínu rokkaðan. Böndin á bikiní brjóstarhaldaranum eru hönnuð þannig að hægt er að breyta þeim á  þrjá vegu. Setja þau í kross, þvert yfir axlirnar eða binda slaufu aftan á hálsinn. Hægt er að versla hvert stykki fyrir sig („mix and match“) og blanda þannig stærðum saman. Síðan verður fljótlega einnig hægt að fá liti til þess að blanda saman.

 

Í þessu myndbandi er hægt að sjá ítarlegri umfjöllun um sundfatalínuna:

 

Hvar eru sundfötin til sölu hér á landi?

Kasy sundfatnaðurinn fæst í Belladonnu í Skeifunni, Rósinni á Akureyri og á snyrtistofunni Hafblik á Vopnafirði. Þar er hann reyndar einungis til sýnis, en hægt er að panta vörurnar þar. Verið er að vinna í netverslun sem opnar von bráðar og einnig er hægt að hafa samband við mig og kíkja til mín á vinnustofuna.“

Katrín segir að öll framleiðsla fari fram erlendis og að þegar það sé þannig þá þurfi að panta visst mikið magn í hverjum lit og stíl til þess að pöntunin geti farið af stað. „En það getur reynst þrautinni þyngri til að byrja með fyrir lítil fyrirtæki eins og Kasy. Þess vegna fórum við af stað með fjármögnun á indiegogo.com þar sem við bjóðum konum að versla sundfatnaðinn fyrirfram og þar er einnig hægt að styrkja okkur með frjálsu framlagi frá $1 og uppúr.“

Katrín bætir við að þeim hjá Kasy þætti afar vænt um ef fólk vildi sýna stuðning og styrkja Kasy. „En með því hjálpar það okkur að ná þeim markmiðum að geta boðið konum um allan heim að eignast Kasy sundfatnaðinn sem veitir þeim vellíðan, eykur sjálfstraust þeirra og þær fá tækifæri til að upplifa sig kynþokkafullar í sundi og á ströndinni.“Myndir/Lárus Sigurðsson

Myndir/Lárus Sigurðsson

 

Og hvernig hefur gengið að koma frumkvöðla verkefni upp hér á Íslandi?

„Það hefur verið lærdómsríkt, maður hefur lent í mörgum hindrunum. Eitt er víst að maður þarf að vera þrjóskur og með mikla ástríðu til að fara út í svona ævintýri. Á svona ferðalagi verða margir grjóthnullungar á veginum og maður þarf að geta fundið leiðir til að sprengja þá í burtu og halda áfram.“

 

En hvað er það erfiðasta við svona verkefni?

„Það er erfitt að svara því á einfaldan hátt. Það er viss bilun að kasta sér í djúpu laugina og stofna fyrirtæki með enga reynslu, sérstaklega þegar maður er að koma með nýja vöru á markað og veit ekki hvernig móttökurnar verða. En þetta verkefni er skemmtilegt, erfitt og því fylgja margar áskoranir. Það er eitthvað sem kveikir í mér við það að leysa þrautir og finna leiðir. Það getur bæði verið skemmtilegt og erfitt að takast á við ný verkefni sem maður hefur ekki unnið að áður.“ Katrín bætir við að það geti verið svolítið erfitt, sérstaklega í byrjun þegar maður þekkir kannski ekki rétta fólkið til að leita ráða hjá. „Þess vegna ráðlegg ég öllum að vera ófeimnir við að spyrja út í hlutina, alls ekki láta það stoppa sig.“

„Fyrst þegar ég byrjaði til dæmis þá sendi ég póst á þá sem mér fannst vera áhugaverðir og voru búnir að koma sinni vöru á markað. Ég forvitnaðist hjá þeim hvernig þau fóru að og bað um ráð í leiðinni. Einnig sótti ég alla viðburði í tengslum við frumkvöðlaheiminn til að kynnast fólki og stækka tengslanetið mitt. Það skiptir nefnilega miklu máli að vera með gott tengslanet. Þannig að það var í rauninni erfiðast að komast af stað í byrjun. Svo var það að finna framleiðanda og geta framleitt fyrstu línuna, koma henni svo á markað og svo framvegis. Svo er að sjálfsögðu alltaf eitthvað sem tekur við.“ Í dag er Kasy komin að tímamótum þar sem það þarf að  stækka og bæta við vöruúrvalið til muna, en það er til þess að komast með vöruna erlendis. „Erlendis er mikil eftirspurn eftir fleiri litum og stílum. En til þess að það verði að veruleika þurfum við að fá fjárfesta í lið með okkur. Ef það er einhver þarna úti sem langar að taka þátt í skemmtilegu ævintýri með okkur, þá endilega hafið samband.“

 

Myndir/ Lárus Sigurðsson

Myndir/ Lárus Sigurðsson

 

En mér leikur forvitni á að vita hvað sé eiginlega það besta við svona verkefni

Katrín segir að það sé tvímælalaust þegar viðskiptavinir hafa samband og segja frá upplifun sinni af sundfötunum. „Það er yndislegt að fá tölvupósta eða hringingar frá viðskiptavinum sem segja mér að varan mín hafi hjálpað þeim að yfirstíga hræðsluna við að fara í sund. Einnig hef ég fengið pósta frá eiginmönnum sem þakka mér fyrir að koma með þennan sundfatnað á markað og tilkynna mér að konan þeirra hafi aldrei viljað fara í sund eða á sólarstrendur fyrr en þær eignuðust Kasy sundfatnaðinn.

 

Katrín segir að það gefi henni mikið þegar hún fær slíkar sögur og það segi henni að hún sé sko sannarlega á réttri braut. „Það er hreinlega yndislegt að heyra svona sögur og vita að mínar konur upplifi sig stórglæsilegar, að þeim líði vel í sundfatnaðinum og vilji taka þátt í leik með fjölskyldunni í sundi, en það er einmitt eitt af mínum markmiðum með vörunni.“ Þar sem greinarhöfundur er óskaplega hrifin af bláa litnum þá er næsta spurning hvenær von sé á hinum litunum í sundfatalínunni. Katrín segir að það fari í rauninni alveg eftir því hvernig Indiegogo herferðin muni ganga. „Við getum í rauninni ekki lofað neinum ákveðnum tíma á þessu stigi þar sem við erum enn að leita að fjárfestum til að taka þátt í þessu spennandi ævintýri með okkur. Markmiðið er samt að koma með litina fyrir sumarið 2015.“

 

Myndir/Lárus Sigurðsson

Myndir/Lárus Sigurðsson


Ég þakka Katrínu Sylvíu innilega fyrir spjallið og spyr hana í lokin hvort hún sé mögulega með einhver skilaboð til þeirra sem langar að fara út í slíkt frumkvöðla ævintýri.

„Já, ef það eru einhverjir þarna úti sem eru með hugmynd, stökkvið þá út í djúpu laugina. Það er þess virði þó svo að þetta geti reynst erfitt á köflum. Þú munt kynnast fullt af  skemmtilegum hlutum og fólki sem þú munt læra af . Þó að þér mistakist þá verður þú reynslunni ríkari og það er eitthvað sem aldrei er hægt að taka frá þér.“

Menninarvitinn óskar Katrínu Sylvíu Símonardóttur alls hins besta í þessu frábæra ævintýri og hér á bæ verður beðið með eftirvæntingu eftir nýju litunum.

 

Skrifari: Ruth Ásdísardóttir   

 

 

 

https://www.indiegogo.com/projects/kasy-multifunctional-swimwear-for-curvy-women#home

Efnisorð:,

Flokkar: Tíska

Höfundur:Menningarvitinn.is

Vefsíða um bókmenntir, listir og menningu
%d bloggurum líkar þetta: