Sædís Rut: „Eldra fólk var alltaf að gefa mér gjafir að ástæðulausu“

Sædís Rut Jónsdóttir fór heldur óvenjulega leið þegar hún hóf framhaldsskólanám haustið 2013 en þá ferðaðist hún alla leið til Japans sem skiptinemi. Sædís á afmæli seint á árinu, e. í desember, þannig að hún var einungis 15 ára þegar hún lagði af stað í hið langa ferðalag, þvert yfir hnöttinn. Í Japan dvaldi hún í heilt ár og finnst henni það eitt það skemmtilegasta sem hún hefur nokkur tíma gert. Það var margt sem kom henni á óvart í Japan og náði ég smá tali af henni á milli skólastunda, en hún býr núna í Svíþjóð hjá föður sínum og bróður og stundar nám í alþjóðlegum framhaldsskóla í Uppsala.

 

Sædís 4

Sædís hafði lengi haft áhuga á japanskri menningu.

 

Ég er mjög forvitin að vita hvernig það er að vera svo ung og fara í heilt ár til Japan, langt frá fjölskyldu og vinum. Þannig að það fyrsta sem ég spyr hana er:

Af hverju Japan?

Sædís segist hafa haft áhuga á japanskri menningu í langan tíma. „Ég hafði áhuga á nánast öllu sem var japanskt. Það var ýmist tölvuleikir, tíska eða tónlist og síðan en ekki síst þá fannst mér tungumálið virkilega heillandi.“ Þannig að þegar Sædís komst að því að hún hefði möguleika á því að fara þangað sem skiptinemi, þá var hún ekki lengi að hugsa sig um. „Ég stökk strax á það. Það kom aldrei neitt annað til greina en Japan, en núna væri ég samt til í að fara liggur við hvert sem er sem skiptinemi, og geri það mjög líklega aftur.“

Ég spyr Sædísi hvort það þurfi mikinn undirbúning fyrir svona ferð en ég ímynda mér að það sé mögulega eitthvað sem hindri fólk í að fara út í svona. Hún segir að svo sé reyndar. „Það er alveg slatti sem þarf að gera áður en maður fer af stað. það er bæði hellingur af pappírum til að fylla út í og síðan er það auðvitað að koma árs birgðum af fötum og drasli ofan í ferðatösku. Mér fannst reyndar undirbúningurinn bara skemmtilegur.“

En hvað stóð mest upp úr hvað skólann varðaði?

„Það sem var minnistæðast við skólann í Japan voru auðvitað skólabúningarnir, ég var í pilsi og skyrtu meirihlutann af skiptinemadvöl minni. Annars voru Japanskir nemendur líka mjög aðdáunarverðir, þeir eru vel agaðir og leggja sig 100% fram í skóla og tómstundum.“

 

Sædís Rut í skólabúningnum góða. Mynd/Facebook

Sædís Rut í skólabúningnum góða. Mynd/Facebook

 

Ég spyr Sædísi hvað hafi verið erfiðast og hún segir að það hafi að sjálfsögðu verið erfitt að vera í burtu frá vinum sínum og fjölskyldu í svona langan tíma. „En ætli það  hafi örugglega ekki verið erfiðast fyrst, þar sem ég skildi ekki neinn og enginn skildi mig. Það tímabil var samt fljótt að líða og síðan var oftast svo mikið skemmtilegt að gera að maður hafði varla tíma til að hugsa um alla heima.“

Aðspurð hvað hafi komið mest á óvart segir Sædís að það hafi tvímælalaust verið hversu vingjarnlegt fólk Japanir eru.

 

Sædís 6

Sædís með vini sínum Takumi.

 

„Það var mikið af ókunnugu fólki sem kom og spjallaði við mig út í búð og á lestarstöðum og svona, eldra fólk var líka mikið í því að gefa mér gjafir að ástæðulausu. Í fyrstu vikunni í skólanum komu allavega í kring um 300 manns að tala við mig, segja „hæ“ og kynna sig fyrir mér. Allt árið var fólk sem ég varla þekkti að veifa og heilsa mér í göngum skólans. Það var tekið mjög vel á móti mér og ég er endalaust þakklát fyrir það.“

 

Matruinn í Japan var aðeins öðruvísi en Sædís á venjast.

Matruinn í Japan var aðeins öðruvísi en Sædís á venjast.

 

Myndir þú mæla með skiptinámi?

„Já, ég mæli sterklega með því. Skiptinám er engu líkt, mjög góð reynsla sem getur opnað fyrir marga möguleika í námi og atvinnu. Það er líka bara svo skemmtilegt, maður kynnist heilum helling af fólki og fær að lifa í öðrum raunveruleika í heilt ár. Aðal happdrættið er bara hjá hvaða fjölskyldu þú lendir, þær koma nefnilega í öllum stærðum og gerðum og manni kemur ekkert endilega vel saman við þær allar. Flest skiptinemasamtök leyfa manni þó að skipta um fósturfjölskyldu ef allt fer úrskeiðis.“

 

Sædís 3

 

Sædís

 

Ég spyr hana í lokin hverju hún myndi ráðleggja öðrum sem eru að fara?

„Ekki hafa of mikið samband heim, ekki vera hrædd/ur við að tala við fólk þó þú kunnir ekki alveg tungumálið og ekki gleyma því að það koma reglulega alveg glataðir dagar sama hvar þú ert í heiminum. Ég segir bara ef þú hefur áhuga á að verða skiptinemi, gerðu það þá. Að gerast skiptinemi er ein besta ákvörðun lífs míns og ég mæli með því fyrir hvern sem er.“

Áður en ég sleppi Sædísi Rut þá spyr ég hana hvað sé framundan hjá henni. Hún segir að það sé bara skóli framundan í Svíþjóð og örugglega eitthvað meira skemmtilegt eftir það. „Ég hef brennandi áhuga á því að ferðast og fer því lengra út í heim um leið og ég hef tækifæri til, hvort sem það sé sem skiptinemi eða til að vinna.“

Ég kveð Sædísi Rut Jónsdóttur og það verður áhugavert að sjá hvaða áfangastaður í heiminum verður næstur fyrir valinu.

 

Efnisorð:,

Flokkar: Menning

Höfundur:Menningarvitinn.is

Vefsíða um bókmenntir, listir og menningu
%d bloggurum líkar þetta: