„Latte Case“ nostalgía og bókabúðaröltur

Það var fyrir tuttugu árum síðan sem ég og Thelma systir uppgötvuðum snilldina á bakvið latte og bókabúðarölt. Við fundum Súfistann sem var (og er enn) á efri hæð Bókabúð Máls og menningar en þá var kaffihúsið nýopnað. Og fyrir okkur opnaðist heill heimur unaðar þar sem fallegar bækur og gott kaffi sameinaðist.

Í þá daga gátum við jafnvel varið nokkrum klukkutímum inni í bókabúðinni. Þá byrjuðum við oft á því að setjast inn á Súfistann og kaupa okkur stóran kaffi latte í súpuskál með svolítið mikilli froðu. Þar gátum við tjáð okkur um allt milli himins og jarðar og skeyttum engu um hvort fólk í kringum okkur heyrði það sem við töluðum um eða ekki. Eftir á gengum við svo í rólegheitum um búðina og enduðum nánast alltaf á því að kaupa okkur að minnsta kosti eina bók.

 

Þetta ritúal varð í rauninni nokkurs konar meðferðarúrræði fyrir okkur systurnar.

 

Þarna á kaffihúsinu deildum við sorgum okkar og gleði, við felldum jafnvel tár endrum og eins. Við rökræddum bækur, sögðum frá ástarsamböndum, töluðum um heimspeki og allt þar á milli. Þetta ritúal varð í rauninni nokkurs konar meðferðarúrræði fyrir okkur, en á þessum tíma var heldur ekki mikið í boði hér á landi þar sem hægt var að vinna úr áfallastreitu eða öðrum sálarkvillum. Við vorum á fullu í að uppgötva heiminn í kringum okkur og vinna okkur úr miklum áföllum. Við áttum hvorugar mikið milli handanna og á þessum tímum þurfti ég að spara hverja einustu krónu. Ég náði sjaldnast endum saman um mánaðarmótin, en í þessar dýrmætu stundir varði ég peningunum mínum og sparaði mér þá eitthvað annað í staðinn. Ég keypti mér til dæmis miklu frekar bók og latte heldur en fatnað og mat.

 

Í miðju Latte Case-i

Í miðju Latte Case-i

 

Orðaforði okkar í dag er þess vegna þannig að ef eitthvað bjátar á eða okkur liggur eitthvað á hjarta, þá tölum við Thelma um að við séum með Latte Case í gangi. Það táknar semsagt að eitthvað þurfi að ræða af innlifun og helst yfir góðum kaffibolla.

Við höfum að sjálfsögðu breyst mikið og þroskast og í dag þegar við hittumst förum við frekar og fáum okkur Sushi þegar við höfum tíma. Við höfum meira milli handanna og eigum báðar svo mikið af bókum að við erum fyrir löngu farnar að velja gaumgæfulega hvað við kaupum og hvað ekki. Svo er að sjálfsögðu tímaskortur til staðar í dag sem truflaði okkur ekki svo mikið þá, auk þess sem ég hef uppgötvað rafbækur í gegnum Amazon en þær eru því miður oftast á helmingi lægra verði en þær sem ég finn í bókabúðum hér á landi.

En, við höfðum semsagt ekki farið saman í almennilegan Latte og bókabúðarrölt í mörg ár – þar til núna um helgina. Og mikið svakalega var það gaman!

 

Thelma gluggar í spennandi bók.

Thelma gluggar í spennandi bók.

 

Í dag er að sjálfsögðu allt breytt. Bókabúð Máls og menningar er ekki til lengur í þeirri mynd sem hún var. Flestir drekka kaffi latte/frappó/Chai/americano í dag enda er það bara hluti af því að fara í bæinn og skoða menninguna. Þetta laugardagskvöld var Laugavegurinn bókstaflega fullur af túristum, allt iðaði af lífi og margar búðir enn opnar þó liðið væri á kvöldið. Í dag er heimur okkar Thelmu líka allur annar enda eigum við orðið fullt af fallegum sögum þar sem við sigruðumst á sársaukanum og létum ekki áföll stöðva okkur í að láta drauma okkar rætast. Í dag drekk ég til dæmis yfirleitt bara venjulegt svart kaffi og læt stóran tvöfaldan latte eiga sig.

 

Nú til dags er það meira bara venjulegur kaffi og íste

Í þessari Latte Case ferð lét ég venjulegt svart kaffi duga og Thelma fékk sér íste.

 

Við fórum í nýju Eymundsson búðina efst á Laugavegi sem við vissum hvorugar að væri búin að opna. Eitthvað sem hefði aldrei farið framhjá okkur í denn. Búðin er reyndar ansi skemmtileg, með langborði við gluggann þar sem mismunandi stólum er raðað í kring og fólk getur tyllt sér með bók og kaffi í hönd. Þegar gengið er inn þá er afgreiðsluborðið til vinstri en kaffibarinn til hægri. Í dag er þessu óhjákvæmilega blandað saman í nánast öllum bókabúðum; kaffihús og bókabúð= Getur ekki klikkað!

 

Latte case 2

Nóg er til af tímaritum í Eymundsson á Laugavegi.

 

Búðin er reyndar ansi túristavæn enda skiljanlegt miðað við staðsetninguna. Úrvalið er ekki mikið heldur er mest um mainstream bækur og helstu íslensku rithöfundarnir þýddir á erlend tungumál. Þarna fann ég reyndar september heftið af ameríska InStyle og varð ég að sjálfsögðu að fjárfesta í því.

Við enduðum síðan á Lækjargötunni í Iðu sem er uppáhalds bókabúðin hennar Thelmu. Þar keypti ég Alice Munro Dear Life sem er reyndar komin út á íslensku – en ég vil heldur lesa hana á frummálinu – og svo keypti ég áhugaverða bók um blaðamennsku í dag. Það er ekki annað hægt að segja en að yndislegir tímar hafi rifjast upp fyrir okkur báðum og ég er ekki frá því að hafa farið bara í svolítið nostalgíu kast þarna á röltinu.

Það er allavega eitt sem hefur ekkert breyst, og það er hversu yndislegt það er að fara í Latte og bókabúðarölt með Thelmu systir!

 

Efnisorð:, , ,

Flokkar: Bókmenntir, Menning, Ritstjóraspjall

Höfundur:Menningarvitinn.is

Vefsíða um bókmenntir, listir og menningu
%d bloggurum líkar þetta: