Nokkrir rithöfundar sem lærðu aldrei ritlist

Rithöfundar eru að sjálfsögðu ekki alltaf lærðir í ritlistinni og hafa jafnvel fengist við allt önnur störf áður en þeir sneru sér að ritstörfum. Hér eru nokkur dæmi, sum koma þér kannski á óvart, sum mögulega ekki:

Höf J K Rowling

J.K. Rowling

Foreldrar Rowling leist alls ekki á að dóttir þeirra myndi hefja nám í bókmenntafræði. Þau voru sannfærð um að það myndi ekki leiða til neins góðs og vildu að hún lærði eitthvað nytsamara. En í dag er J.K. Rowling talinn einn vinsælasti rithöfundur samtímans og bækurnar hennar um galdrastrákinn Harry Potter er allra söluhæsta bókaröðin í bókmenntasögunni. J.K.Rowling lét eftir þrýstingi foreldra sinna og lærði frönsku. Hún segir það hafa verið mistök þrátt fyrir að hún hafi notið þess að dvelja í París í eitt ár sem hluta af náminu. Hún útskrifaðist með B.A. gráðu í frönsku og klassísku fræðum úr háskólanum í Exeter.

Höf Danielle Steel

Danielle Steel

Danielle Steel er einn söluhæsti rithöfundur heimsins í dag en hún hefur gefið út um 80 bækur. Hún segist alltaf hafa haft gaman að því að skrifa en aldrei lært ritlist í skóla. Hún stundaði nám í tísku- og hönnunarskólanum Parsons í New York í eitt ár og síðan í NYU en hætti námi aðeins fjórum mánuðum áður en hún átti að útskrifast. Danielle Steel segist kannski hafa misst af einhverju, en finnst það ekki líklegt og saknar ekki neins. Hún hefur enn mikinn áhuga á tísku og öllu sem henni viðkemur og heldur úti bloggi um áhugamál sitt.

Höf Kurt Vonnegut

Kurt Vonnegut

Kurt Vonnegut hóf ungur nám í efnafræði en það voru bróðir hans og faðir sem ýttu honum út í námið. Hann hafði hins vegar engan áhuga á efnafræði og féll ítrekað á prófum. Hann endaði á því að fara í mannfræði í Háskólanum í Chicago en kláraði aldrei mastersverkefnið sitt. Síðar fékk hann reyndar M.A. gráðu frá skólanum fyrir bók sína Cat´s Cradle.

Kurt Vonnegut, sem sat í nefnd fyrir samtímalist í New York fylki, var alla tíð ötull talsmaður þeirra sem ekki voru lærðir í ritlistinni. Hann sagði eitt sinn frá því í viðtali við Paris Review að þegar nefndin hefði viljað senda beiðnir í bókmenntafræði- og listadeildirnar í háskóla fylkisins til að hvetja nemendur til að senda frá sér efni, þá hafi hann stungið upp á því að senda frekar inn beiðnir í aðrar deildir eins og efnafræðideildina, mannfræðideildina, lagadeildina og læknadeildina. Kurt Vonnegut sagði að það væri miklu meiri líkur á að finna rithöfundana þar inni heldur en í bókmenntadeildunum. Honum fannst bókmenntafræðin oft afar snobbuð og sagði að stundum væri hún svolítið föst uppi í óæðri endanum á sér. Kurt Vonnegut lést árið 2007

Höf John Grisham

John Grisham

John Grisham sagði eitt sinn í viðtali að hann hefði aldrei ætlað sér að verða rithöfundur. Til að byrja með fór hann eingöngu í háskóla til að djamma og til að losna undan strangtrúuðu heimili.

En eftir tvö ár af djammi og ömurlegum einkunnum fór hann að taka lífinu aðeins meira alvarlega og endaði á að fara í lögfræðinám í ríkisháskólanum í Mississippi. Eftir að hann hóf störf sem lögfræðingur var hann ekki lengi að safna að sér efni í fyrstu bókina sína A Time To Kill. En John Grisham er talinn fjórði vinsælasti rithöfundur samtímans.

Höf Michael Crichton

Michael Crichton

Eftir að hafa verið sagt í ensku bókmenntafræðideildinni í Harvard að hann ætti ekki að reyna fyrir sér með skrifum, skipti Michael Crichton um nám og fór í líffræðilega mannfræði. Hann kláraði prófið í þeirri grein en fann sig samt aldrei á þeim starfsvettvangi. Hann hóf að skrifa á ný og endaði einnig í kvikmyndaframleiðslu, leikstjórn og handritsskrifum. Michael Crichton sagði að hann hefði lært einstaklega mikið af menntun sinni og meðal þess mikilvægasta væri til dæmis að vinna undir miklu álagi og taka ákvarðanir og halda sig við þær. Menntun hans kom honum einnig afar vel þegar hann skrifaði Jurassic Park . Hann lést árið 2008.

Höf Robert Ludlum

Robert Ludlum

Robert Ludlum, höfundur bókanna um Jason Bourne átti heldur erfitt uppdráttar í byrjun. Hann lærði leiklist í háskóla og reyndi fyrir sér sem leikari áður en hann hóf að stunda ritstörf. Hann fékk nokkur lítil hlutverk í leikritum og sjónvarpsauglýsingum áður en hann gerðist framleiðandi á Broadway. Honum leiddist hins vegar vinnan en hann kynntist mörgum handritshöfundum sem sögðu honum að hann gæti skrifað.

Höf Jean M Auel

Jean M. Auel

Jean M. Auel er með M.B.A. gráðu frá háskólanum í Portland. Þegar hún var fertug settist hún niður og ætlaði að skrifa smásögu. Það sem hún vissi ekki var að “smásagan” myndi verða að sex bókum um hellaþjóðina og það myndi taka hana 35 ár að klára alla söguna. Bækurnar hennar hafa selst í yfir 45 milljónum eintaka.

Höf Norman Mailer

Norman Mailer

Áður en Norman Mailer varð heimsfrægur rithöfundur reyndi hann fyrir sér í verkfræði. Eftir þrýsting frá foreldrum sínum þá skráði hann sig í flugverkfræði í Harvard. Hann vissi hins vegar alltaf að hann vildi ekki verða verkfræðingur. Hann tók þó alla nauðsynlegustu kúrsana og prófin til þess að komast í gegnum námið en eyddi síðan öllum frítíma sínum í að skrifa og fara á bókmenntasamkomur. Hann tók einnig oft þátt í sögukeppnum sem hann vann. Hann átti síðan eftir að vinna Pulitzer fyrir verk sín en meðal verka hans er Hörkutól stíga ekki dans. Norman Mailer lést árið 2007.

Heimild: Huffingtonpost.com

Efnisorð:, ,

Flokkar: Bókmenntir, Skemmtilegt

Höfundur:Menningarvitinn.is

Vefsíða um bókmenntir, listir og menningu
%d bloggurum líkar þetta: